Í gær var greint frá því að Endurupptökudómstóll hafi hafnað beiðni hennar um endurupptöku á Hæstaréttardómi í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálin.
Erla var dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir rangar sakargiftir í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Hefur hún á undanförnum árum barist fyrir því að dómurinn verði endurupptekinn.
Segist ætla að fara þær leiðir sem eru í boði, allt til enda
Á blaðamannafundinum í dag fór hún ítarlega yfir málið frá hennar sjónarhóli og það ranglæti sem hún telur að hún hafi verið beitt frá því að það hófst.
Var hún meðal annars spurð að því hvort hún hafi í hyggju að kæra íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Hún svaraði því játandi, það kæmi sannarlega til greina.
Lögmaður hennar, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, tók þá til máls og útskýrði að skilyrðin til að leita til MDE sé að viðkomandi hafi fyrst klárað allar leiðir innanlands.

„Og þessi dómur endurupptökudóms er í rauninni endanleg niðurstaða innanlands þannig að það er klárlega eitthvað sem kemur til skoðunar næst á þessu stigi,“ sagði Sigrún.
Erla tók af allan vafa um málið og sagði: „Á meðan það er leið þá fer ég hana“
Á enga ósk heitari en að málið fái sín endalok
Á fundinum fór Erla yfir víðan völl og greindi hún meðal annars frá því að hún hafi greinst með ólæknandi krabbamein.
„Það er kannski allt í lagi að það komi fram, stjórnvöld vita af því, ég lét fylgja trúnaðarbréf með umsókn minni um endurupptöku þar sem fram kom að ég hef greinst með krabbamein sem læknar treysta sér ekki til að lækna. Þannig að ég stend frammi fyrir því í þessu öllu. Ég á enga ósk heitari, hvað mig persónulega varðar, en að þetta mál fái sín endalok og fari bara fram formleg jarðarför á þessu öllu saman en það gerist ekki fyrr en að réttlæti kemur fram,“ sagði Erla.
Horfa má á blaðamannafundinn í heild sinni hér að neðan.
Lýsti kynferðisofbeldi í Síðumúlafangelsi
Á fundinum var hún meðal annars spurð út í meint kynferðisbrot gegn henni af hálfu lögreglumanns í Síðumúlafangelsi árið 1976, er Erla var þar í haldi. Erla kærði málið löngu síðar til. Rannsókn málsins var felld niður árið 2013 þar sem hið meinta brot var fyrnt. Þá neitaði viðkomandi lögreglumaður sök.
Sagði Erla að viðkomandi lögreglumaður hafi komið inn í klefa hennar umræddan dag og spurt um líðan hennar.
„Það næsta sem ég veit er að hann girðir niður um sig. Er búinn að setja á sig verju og bara gengur hreint til verks. Hann er stöðugt að hlusta eftir því að það sé engin að koma. Hann var kannski tíu mínútur eða korter þarna inni. Allt í einu rýkur hann upp, segir eitthvað, hvíslar eitthvað: „Ekki tala um þetta,“ og fer,“ sagði Erla.

Þá ræddi hún einnig um það hvaða áhrif málið allt hefur haft á líf hennar, en hún var um tvítugt þegar það hófst.
„Samband mitt við fyrsta barnið mitt leið fyrir þetta, og gerir enn í dag. Hún var orðin tveggja ára þegar ég fékk hana til baka. Ég þurfti að berjast með miklum látum, því að það átti ekki að láta mig fá hana aftur,“ sagði Erla.
Dóttir hennar var ellefu mánaða þegar Erla var fyrst handtekinn.
„Við náðum ekki að mynda þessi tengsl sem móðir og barn mynda, í öllu þessu.“
Þá hafi samfélagið tekið henni mjög illa eftir að hún var látin laus úr varðhaldi á áttunda áratugnum.
„Það sem að tók við eftir að ég var látin laus úr gæsluvarðhaldi var þvílík heift og fyrirlitning og hatur sem ég mætti.“
Óblíðar viðtökur samfélagsins
Hún sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því hversu mikið var fjallað um málið á meðan hún var í varðhaldi. Hún hafi orðið þjóðþekkt án þess að vita af því.
„Ég gat verið að labba og einhver allt í einu þekkti mig og byrjaði að úthúða mér, hrækja á mig.“
Mér var alls staðar sagt að hér væri ég ekki velkomin, fólk eins og ég. Að dauðadómurinn ætti að vera í gildi fyrir fólk eins og okkur.
Hún hafi í raun aldrei fengið að upplifa það að vera saklaus af þessu máli.
„Allar mínar ákvarðanir voru teknar í skugganum af þessu máli. Ég hef aldrei fengið að lifa fyrir utan það.“
Þetta hefur litað allt líf þitt?
„Alveg, á hverjum degi.“