Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt tölvuteiknað myndband af fyrirhugaðri ES-30 flugvél Heart Aerospace í litum Icelandair. Sænski frumkvöðullinn Anders Forslund, stofnandi og forstjóri Heart, kynnti flugheiminum í síðustu viku grind að þrjátíu sæta flugvél. Sú verður uppfærð útgáfa af nítján sæta vél, ES-19, sem fyrirtækið hafði áður stefnt að.

Jafnframt var skýrt frá því að flugvélin yrði tvinnvél en ekki eingöngu rafmagnsflugvél og að hún myndi einnig geta gengið á sjálfbæru flugvélaeldsneyti. Ennfremur að stofnaður hefði verið fagráðsvettvangur með ýmsum aðilum í fluginu um þróun hennar.
„Icelandair er þar þátttakandi ásamt fleiri flugrekendum, flugvöllum og fleiri. Þar er hugmyndin að það sé hægt að nýta þessa miklu reynslu sem skapast bara í umhverfi flugs til að tryggja örugga og áreiðanlega þróun flugvélarinnar,“ segir vélaverkfræðingurinn Heiða Njóla Guðbrandsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.

Icelandair og Heart Aerospace kynntu í fyrra samstarf um minni vélina en undirrituðu nýja viljayfirlýsingu síðastliðinn fimmtudag um þá stærri. Sænska fyrirtækið birti myndir af vélinni í útliti Icelandair þegar kynnt var hvaða flugfélög hefðu lýst áhuga á að kaupa hana.
„Þetta sem við gefum út er í raun yfirlýsing um áhuga á þróun flugvélarinnar og við nefnum fimm vélar til samræmis við flota okkar í innanlandsflugi í dag. Og svo er það verkefni okkar núna að meta hvernig þetta verkefni hæfir rekstrinum í framtíðinni.“

Heart Aerospace stefnir að því að þeirra vél verði komin í farþegaflug árið 2028, eftir sex ár. En hvenær telja ráðamenn Icelandair raunhæft að slíkar vélar sjáist í innanlandsfluginu á Íslandi?
„Það er horft til tækifæra tengt rafmagnsflugi og raunar vetnisflugi á þessum áratug. Það er eitthvað sem við teljum mögulega þróun.“
-Þannig að fyrir 2030 gætum við séð jafnvel svona vél á Reykjavíkurflugvelli?
„Það er mögulegt, já,“ svarar Heiða Njóla.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá beina útsendingu Stöðvar 2 frá flugvellinum á Hellu í sumar þegar fyrsta rafmagnsflugvél Íslendinga hóf sig til flugs í fyrsta sinn á Íslandi: