Forseti þingsins gegnir lykilhlutverki við myndun ríkisstjórnar, en Norlén segist munu funda með samflokksmanni sínum, Ulf Kristersson, formanni Moderaterna, á miðvikudaginn. Þar munu þeir funda um gang mála í stjórnarmyndunarviðræðun hægriflokkanna, en þingforsetinn fól Kristersson í síðustu viku það verkefni að mynda nýja stjórn. Norlén segist telja að það muni taka skemmri tíma nú en árið 2018 að mynda nýja ríkisstjórn.
Norlén mun síðar tilnefna nýjan forsætisráðherra sem þingið mun greiða atkvæði um, en í Svíþjóð er fyrirkomulagið á þann veg að meirihluti þarf ekki að samþykkja nýjan forsætisráðherra, heldur þarf meirihluti að umbera viðkomandi, það er ekki greiða atkvæði gegn.
Norlén hefur setið á þingi frá árinu 2006 og notið virðingar sem forseti þingsins frá því að hann tók við embættinu 2018.
Ljóst er að Kenneth G. Forslund, þingmaður Jafnaðarmanna, verður 1. varaforseti þingsins og eru líkur á að þingmaður Svíþjóðardemókrata, Julia Kronlid, verði 2. varaforseti þingsins.
Mið- og hægriflokkarnir fjórir – Moderaterna, Svíþjóðardemókratar, Kristilegir demókratar og Frjálslyndir – tryggði sér 176 þingsæti gegn 173 sætum mið- og vinstriblokkarinnar í þingkosningunum sem fóru fram 11. september.
Magdalena Andersson, forsætisráðherra og leiðtogi Jafnaðarmanna, baðst lausnar fyrir ríkisstjórn sína í þarsíðustu viku.