Um er að ræða einn mikilvægasta leikinn í sögu íslenskrar knattspyrnu en sigur í dag tryggir kvennalandsliðinu farseðil á heimsmeistaramótið sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á næsta ári.
Um 160 farþegar eru nú í rúmlega 180 sæta vélinni, en landsliðið og starfsfólk KSÍ munu fylla hin auðu sæti á leiðinni aftur til Íslands í nótt. Samkvæmt fréttamanni og ljósmyndara fréttastofu eru flugliðarnir í vélinni allir í landsliðstreyjum og sömu sögu er að segja af sumum starfsmönnum veitingastaða í flugstöðinni.

Í hópi stuðningsfólks eru ungar og efnilegar fótboltastelpur, meðal annars frá Akranesi og Reykjanesbæ, sem halda nú utan til að fylgjast með átrúnaðargoðunum spila inn mikilvægasta leik ferilsins. Þá er Guðni Th. Jóhannesson forseti einnig í vélinni og situr hann fremst.

Áætlað er að vélin lendi í Porto klukkan 12:50 að staðartíma og fer mannskapurinn þá upp í rútu á völlinn þar sem leikurinn verður spilaður. Leikurinn hefst klukkan 17 að íslenskum tíma.
Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari fréttastofu, náði nokkrum myndum af stuðningsmönnum landsliðsins á Keflavíkurflugvelli í morgun.




