HTS hefur hingað til verið ráðandi í Idlib-héraði Sýrlands, sem liggur nærri Afrin.
Afrin var lengi undir stjórn sýrlenska Kúrda og þótti vera vin friðar í óöldinni í Sýrlandi frá því borgarastyrjöldin þar hófst árið 2011. Nærri því hálf milljón manna hafa dáið síðan þá, svo vitað sé, og um helmingur sýrlensku þjóðarinnar hefur þurft að flýja heimili sín vegna átaka.
Það breyttist þó árið 2018 þegar öfgahópar, studdir af Tyrkjum, réðust á héraðið með stuðningi tyrkneska hersins. Íslendingurinn Haukur Hilmarsson, sem barðist með Kúrdum, féll þá í Afrin-héraði en talið var að það hefði gerst í loftárás tyrkneska hersins.
Sjá einnig: Kúrdar staðfesta að Haukur sé látinn
AFP fréttaveitan sagði frá því í gær að bardagar hefðu átt sér stað í Afrin á undanförnum dögum. Margir öfgahópar berjast um yfirráð á svæðinu og ríkir þar mikil óreiða. Í morgun bárust svo fregnir af því að vígamenn HTS hefðu náð tökum á Afrin-borg og hefðu flutt þangað mikinn liðsauka
Héraðsmiðillinn Kurdistan24.net sagði svo einnig frá því að HTS hefði tekið Afrin-borg og vísaði meðal annars í samtökin Syrian Observatory for Human Rights, sem vakta átökin í Sýrlandi.
Not to mention this ex-Regime T-72[A/M1?] reinforcing the advancing HTS forces. Note the use of low loaders to transfer heavy armour, not ruining tracks, roads and using fuel to drive the vehicles directly.pic.twitter.com/fVuo2893rD
— C O s (@CalibreObscura) October 13, 2022
Þetta ku vera í fyrsta sinn sem vígamenn HTS koma til borgarinnar frá því Tyrkir og sveitir þeirra réðust á héraðið. Áðurnefndur héraðsmiðill segir að átökin hafi byrjað á því að aðgerðasinni sem gekk undir nafninu Abu Ghannoum og ólétt kona hans voru myrt í úthverfi Aleppo-borgar.
Eftir morðið hafi vígamenn nokkurra öfgahópa sem Tyrkir styðja byrjað að berjast sín á milli.
Þessir hópar hafa lengi deilt sín á milli og hafa sömuleiðis lengi verið sakaðir um mannréttindabrot gegn fólki á yfirráðasvæðum þeirra.