Leiðandi tilgátur um myndun tunglsins er að það hafi orðið til úr braki frá árekstri fyrirbæris á stærð við Mars, sem hefur verið nefnt Þeia, og jarðarinnar í árdaga sólkerfisins fyrir milljörðum ára. Brakið hafi runnið saman á braut um jörðina og myndað tunglið á mánuðum eða árum.
Ný rannsókn vísindamanna hjá bandarísku geimvísindastofnunni NASA og Durham-háskóla, sem byggir á hermilíkani sem var keyrt með ofurtölvum, bendir til þess að tunglið hafi myndast nánast samstundis við áreksturinn. Líkanið er sagt eitt það nákvæmasta sinnar tegundar en eldri líkön hafi misst af mikilvægum þáttum í eðli risavaxinna árekstra af þessu tagi, að því er segir í tilkynningu á vef NASA. Grein um rannsóknina birtist í vísindaritinu Astrophysical Journal Letters.
Þó að eldri tilgátur hafi skýrt suma eiginleika tunglsins vel, þar á meðal massa þess og sporbraut um jörðina, hafa þær ekki geta svarað öðrum spurningum eins og hvers vegna efnasamsetning tunglsins og jarðarinnar er svo lík sem raun ber vitni. Það þykir benda til þess að tunglið sé að megninu til sett saman úr efni úr þessari frumjörð.
Fyrri tilgátur hafa gengið út frá því að það hafi fyrst og fremst verið efni úr Þeiu sem dreifðist á braut um jörðu eftir áreksturinn. Líkindi tunglsins og jarðarinnar gætu þá aðeins skýrst af því að Þeiu hafi einnig svipað mjög til jarðarinnar. Það telja vísindamennirnir ósennilega tilviljun.
Ef tunglið myndaðist raunverulega nánast samstundis eftir áreksturinn eins og nýja rannsóknin bendir til kæmi það vel heim og saman við aðra eiginleika tunglsins sem ekki hefur tekist að skýra, þar á meðal skáhalla braut þess um jörðina og þunna skorpu þess. Tilgátan væri þannig sú heildstæðasta um uppruna tunglsins til þessa.
Til þess að sannreyna tilgátuna þarf jarðsýni frá svæðum á tunglinu sem hafa ekki verið könnuð áður og dýrpa úr jarðskorpu þess. NASA hefur áform um að senda menn til tunglsins með Artemis-áætluninni svonefndu. Gangi hún eftir lentu menn í fyrsta lagi á tunglinu á síðari hluta þessa áratugs. Áætlunin hefur þegar tafist vegna vandræðagangs við tilraunageimskot.