Skoðun

Boðorðin tíu

Bjarni Karlson og Jóna Hrönn Bolladóttir skrifa

Þegar maður er 13 ára er tímabil fram undan þar sem persónur mótast og flestar stærstu ákvarðanir lífsins verða teknar innan tíðar. Ósk foreldra og annara ástvina er fyrst og síðast sú að barnið verði heil og sönn manneskja sem vilji vanda sig í lífinu.

Velkomin í smá fermingarfræðslu:

„Ég er Drottinn Guð þinn sem leysti þig úr ánauð, þú skalt ekki aðra guði hafa“ – Gakktu upprétt(ur) í gegnum lífið. Ekki lúffa fyrir ranglæti eða gera peninga og völd eða annað dót að guði þínu. Lífið er gjöf frá Guði en ekki gróði eða redding.

„Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma“ – Þekktu sjálfa(n) þig og hafðu hégómann í tékki. Þótt þú fylgir öllum boðorðunum upp á tíu en lítur niður á aðra í leiðinni ertu vikin(n) af kærleikans braut. Trú og hræsni er vond blanda.

„Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagann.“ – Lífsgleðin er frá Guði. Allt sem lifir þarf endurnærandi hvíld. Lifum hóflega og leikum okkur fallega.

„Heiðra föður þinn og móður svo þú verðir langlífur í landinu.“ – Forsenda farsæls lífs er virðing. Það er gott að fæðast inn í fjölskyldu þar sem virðing og skilningur ríkir milli kynslóða en ekki stjórnun og gremja.

„Þú skalt ekki mann deyða“ – Þú veist að hver manneskja er systir þín og bróðir. Verndum líf allra og skiljum engan eftir.

„Þú skalt ekki drýgja hór“ – Kynferðisleg samskipti eru mikilvæg og vandasöm. Látum örvæntingu og markaleysi ekki ráða gjörðum okkar en iðkum sjálfsstjórn og ást með virðingu. Þá er gott að elska.

„Þú skalt ekki stela“ – Verum frjálsar manneskjur. Þegar við tökum eitthvað ófrjálsri hendi erum við ekki lengur frjáls. Þjófnaður tekur mest frá þeim sem stelur.

„Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum“ – Mannorð skiptir máli. Alltaf þegar við baktölum aðra erum við að tapa fyrir sjálfum okkur. Sá sem verndar mannorð náungans uppsker virðingu. Sannaðu til!

„Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.“ – Öfund býr í hverri mannssál því við erum ófullkomnar verur. En við skulum ekki ala á henni þannig að hún stjórni lífi okkar. Virðum hús náungans með öllu sem þar þrífst. M.ö.o.: Virðum líf annara eins og þau lifa því. Lifum og leyfum öðrum að lifa.

“Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.“ – Hér sjáum við að sitthvað hefur blessunarlega breyst á 3000 árum. Við lítum ekki lengur á konur, þræla og ambáttir sem eignir við hlið búfénaðar. En það sem ekki hefur breyst er mannlegt eðli. Þess vegna er nóg að muna þetta með húsið hér fyrir ofan því hús stendur fyrir allt það sem fólk er og á, hvort sem þau leigja sína íbúð eða búa í höllum.

Segja má að helgisagnir Biblíunnar séu tímahylki utan um langtímaminni mannkyns sem miðla þekkingu genginna kynslóða. Tíðarandi sem búinn er að missa börnin sín ofan í símana þannig að talsambandið milli kynslóða er við það að rofna má ekki við því að missa fermingarfræðsluna út í loftið.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×