Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins gerði boðað frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum að umtalsefni í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

„Því að það hefur ríkt mjög mikil óvissa um hvert þessi stjórn stefni í útlendingamálum. Og nú heyrum við af, ekki óeiningu, það er talað um sérstaka einingu en þó tafir í þingflokki Sjálfstæðismanna,“ sagði Sigmundur Davíð.
En frumvarp dómsmálaráðherra var afgreitt úr ríkisstjórn hinn 20. september og þingflokkum hinna stjórnarflokkanna fljótlega þar á eftir. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins afgreiddi frumvarpið hins vegar ekki fyrr en í gær.
„Mun hæstvirtur dómsmálaráðherra fá stuðning við að laga útlendingafrumvarp sitt. Bæta að því marki að það hafi einhver teljandi áhrif og þarf ekki meira til,“ spurði formaður Miðflokksins.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði allar áherslur ríkisstjórnarinnar snúa að því að verja tilgang hælisleitendakerfisins. Þannig að það þjónaði þeim sem í raun þyrftu á því að halda.

„En að kerfið sé ekki þannig að fleiri sæki í það sem valdi okkur kostnaði, umstangi. Leiti leiða til að komast inn í hælisleitendakerfið þegar þeir eru í raun og veru að leita að stað til búa á og bæta lífskjör sín til lengri tíma,“ sagði Bjarni.
Vegna stöðu mála í Venesuela hefur fólk þaðan átt greiðan aðgang að Íslandi undanfarin misseri. Bjarni sagði vísbendingar um að glæpagengi misnotuðu ástandið.
„Við erum sömueiðis með mjög miklar áhyggjur af skilaboðum sem löggæsluyfirvöld í landinu eru að senda okkur. Um að vegabréf frá Venesuela gangi kaupum og sölum. Þeim sé síðan framvísað hér eins og annars staðar. Að þeir sem komi með slík vegabréf standi í skuld við þá sem útvegi slík vegabréf og þurfi á komandi árum að finna leiðir til að fjármagna þá skuld,“ sagði fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Alþingi hafi ekki tekist í fjórgang að afgreiða fyrri frumvörp innanríkis- og dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum. Mikilvægt væri að nú tækist sátt um málið á þingi.
„Þannig að ráðherrann er að reyna að finna leiðir til að fá umbætur á lagaumgjörðinni. Án þess þó að ætla sér bara að skalla veginn og vera óraunsær um hvað Alþingi er tilbúið að gera,“ sagði Bjarni Beneditksson.