Mikil ólga hefur ríkt innan Ferðafélagsins frá því að Anna Dóra Sæþórsdóttir, fyrrverandi forseti félagsins, steig fram og sagði af sér eftir að hafa lent upp á kant við aðra stjórnarmenn. Þeim ber ekki saman um hversu stórt vandamál áreitni- og ofbeldismál séu innan félagsins.
Kristín er í hópi þeirra félagsmanna sem ekki hugnast viðbrögð núverandi stjórnar við ofbeldis og áreitnismálum. Á dögunum sendi hún stjórn nokkrar spurningar um viðbrögð við kynferðis-og áreitnismálum sem hefðu komið upp. Í stað þess að fá skriflegt svar var hún boðuð á fund stjórnar.
„Þar fékk ég bara staðfestingu á því að þau mál sem ég hef verið að leggja áherslu á hafa ekki verið meðhöndluð með réttum hætti og er í rauninni alls ekki lokið eins og þau segja í sinni yfirlýsingu.“
Þá varð hún á fundinum þess áskynja að stjórnin liti þessi mál ekki alvarlegum augum.
„Mér fannst þau gera lítið úr málum að segja það til dæmis að það hefur ekki verið nein nauðgun en áreitni getur haft mikil áhrif á þolendur og áreitni er bæði í jafnréttislögum og hegningarlögum skilgreind og þar kemur líka fram að félögum ber að koma í veg fyrir að fólk verði fyrir áreitni í félagastarfi þannig að þetta eru alvarleg mál og ég skynjaði það að þessu væri ekki tekið nógu alvarlega hjá stjórninni.“
Kristín bindur vonir við að fólk sem vill breytingar í félaginu mæti á félagsfundinn í kvöld og taki afstöðu.
En hvað gerist ef tillagan verður felld?
„Þá mun ég náttúrulega bara segja mig úr félaginu. Þá er þetta bara alveg búið fyrir mér.“
Heldurðu að aðrir muni fylgja?
„Já, það finnst mér mjög líklegt og ekki síst konur. […] Konur vilja vera þar sem hugað er að þeirra öryggi. Ef það er ekki áhugi á því og ef tillagan er felld að þá er það náttúrulega bara vísbending um að það sé ekki verið að taka öryggi farþega ferðafélagsins alvarlega.“