Í gær afhenti Efling Samtökum atvinnulífsins kröfugerð fyrir komandi kjarasamningsviðræður sem hljóðar meðal annars upp á 167 þúsund króna hækkun allra mánaðarlauna á þriggja ára samningstímabili. Formanni Starfsgreinasambandsins líst vel á kröfugerðina, segir hana vel unna og raunhæfa.
„Og harmónerar í raun og veru algjörlega við það hvernig ég sér fyrir mér að við nálgumst þetta verkefni. Eina sem liggur ekki fyrir hjá okkur í Starfsgreinasambandinu er tímalengd samningsins og hversu langur hann verður. Það er ástæðan fyrir því að við í Starfsgreinasambandinu vorum ekki búin að koma okkur niður á hver krónutalan ætti að vera, það fer eftir því hversu langur samningurinn er. Þessi tala sem þau nefna þarna finnst mér algjörlega vera mjög góð,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Hann segir framfærslukostnað launafólks hafa hækkað gríðarlega á undanförnum tólf til fjórtán mánuðum.
„Það er alveg ljóst að það er ekki bara lágtekjufólk sem á í erfiðleikum með að framfleyta sér frá mánuði til mánaðar og halda mannlegri reisn, heldur er það líka orðið venjulegt millitekjufólk sem hefur verið að lenda í vandræðum sökum mikillar hækkunar á vaxtabyrði, leigu eða öðru slíku.“
Hann væri persónulega tilbúinn að styðja kröfugerð Eflingar. Viðræður bandalags Starfsgreinasambandsins og Landssambands íslenskra verlzunarmanna við Samtök atvinnulífsins eru á góðu róli að sögn Vilhjálms en í dag væri fyrirhugaður þriggja tíma fundur með þeim.
Vill Eflingu með
Þetta bandalag ykkar, fer Efling með í það?
„Staðan er bara þannig að það er réttur hvers stéttarfélags fyrir sig að vera með samningsumboðið sitt hjá sér en ég hef alla tíð sagt það að því fleiri sem við erum saman því sterkari afl erum við. Að sjálfsögðu myndi ég vilja sjá Eflingu með okkur í þessu bandalagi“