„En það sem ég tel að þurfi að skoða sérstaklega í þessu máli, og ég held að ég tali nú fyrir munn allra, er að ég tel að það þurfi að fara yfir málefni fatlaðs manns, sem var einn af þessum einstaklingum. Það skiptir gríðarlegu máli að við vöndum okkur þegar um viðkvæma hópa er að ræða og að það verði farið yfir það hvort réttindi hans hafi verið virt að öllu leyti eins og á auðvitað að vera,“ segir Katrín í samtali við fréttastofu í dag.
Hlusta má á viðtalið við Katrínu þegar 3 mínútur eru liðnar af fréttinni:
Skilurðu þessa reiði almennt í þessu máli?
„Já, þessi mál eru auðvitað flókin. Þessi brottvísun byggir á löggjöfinni frá 2016 sem ríkti pólitísk samstaða um. En það er eðlilegt hins vegar að fólk reiðist þegar það sér einhvers konar valdbeitingu í svona málum.“
Nú gerist þetta á þinni vakt, ertu sátt við það?

„Þarna er byggt á löggjöf sem var samþykkt 2016 sem er nú raunar fyrir mína vakt en allir flokkar studdu á sínum tíma og flest telja að hafi elst vel. En það liggur auðvitað fyrir að þegar við erum með reglur þá óska margir eftir því að koma og fá að vera en það fá ekki allir jákvætt svar og það er bara flókið,“ segir Katrín.
Ný könnun um stuðning við frumvarp Jóns Gunnarssonar
Umræðan um þessa brottvísun blandast umræðu um frumvarp dómsmálaráðherra til nýrra útlendingalaga.
Í könnun sem Maskína lagði fyrir er niðurstaðan sú í fyrsta lagi að 62% Íslendinga hafa raunar fremur lítið eða mjög lítið sem ekki neitt kynnt sér efni frumvarpsins og aðeins 11% hafa kynnt sér það að ráði. 31,5% fólks er þá andvígt eða mjög andvígt frumvarpinu, 45 prósent eru hlutlaus og 22,8% eru hlynnt því. Mestur er stuðningurinn innan Miðflokks og Sjálfstæðisflokks.