Stjarnan byrjaði leikinn í kvöld mun betur og komst í 6-1 strax í upphafi. Þeir leiddu nær allan fyrri hálfleikinn og var fátt sem benti til annars en að þeir færu með stigin tvö með sér suður í Garðabæ.
Staðan í hálfleik var 15-9 gestunum í vil og KA menn í brekku. Gestirnir héldu í horfinu í byrjun síðari hálfleiks en KA fór svo að bíta frá sér. Í stöðunni 19-12 Stjörnunni í vil náðu heimamenn 9-4 kafla og staðan orðin 23-21 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir.
KA tókst síðan að jafna leikinn í 26-26 með marki frá Patreki Stefánssyni og komust tveimur mörkum yfir í stöðunni 28-26. Spennan í algleymingi.
Stjarnan jafnaði metin í 28-28 en Gauti Gunnarsson kom heimamönnum aftur í forystu þegar skammt lifði leiks. Starra Friðrikssyni tókst hins vegar að jafna metin í 29-29 og það urðu lokatölur leiksins.
Dagur Gautason og Patrekur Stefánsson voru markahæstir hjá KA í kvöld með sjö mörk hvor. Nicholas Sachewell varði átta skot í markinu sem gerir 42% markvörslu en Bruno Bernat varði 5 skot.
Hjá Stjörnunni skoraði Starri átta mörk og þeir Þórður Tandri Ágústsson og Hergeir Grímsson sjö mörk hvor. Arnór Freyr Stefánsson varði 8 skot eða rúm 25% þeirra skota sem hann fékk á sig.