Línan Hidden People er innblásin af huldufólki og litum og áferð íslenskrar náttúru. „Enda eru til margar sögur af glæsileika og glysgirni huldufólksins sem við sækjum innblástur til,“ segir Hildur sem hannaði línuna í miðjum heimsfaraldri þegar allir voru að ferðast innanlands og spá meira í nærumhverfinu, íslenskri náttúru og þjóðsögum.
Með þessari línu kynnir Hildur ný form og nýja stíla til sögunnar, ásamt því að hafa notast mikið við endurunnin efni við hönnun og framleiðslu hennar.
„Við höfum verið að leita ýmissa leiða til þess að vera sem umhverfisvænust. Við framleiðum til að mynda ýmsan fatnað úr endurunnu plasti sem er unnið í þráð sem gerð eru úr endurunnu polyester efni. Helsta sem skiptir þó máli er að við framleiðum hjá fjölskyldufyrirtæki sem gerir fatnað fyrir okkur í litlu magni og passar að efnin fari ekki til spillis.“

Fagna línunni um helgina
Ljósmyndarinn Saga Sig myndaði nýju línuna og fór myndatakan fram í íslenskri náttúru. Við myndatökuna var notast við bæði íslenskar sem og erlendar fyrirsætur. Þeirra á meðal var fyrirsætan Molly Constable, rísandi stjarna í fyrirsætuheiminum, sem kom alla leið frá New York.
„Við höfum fylgst með Molly lengi og vorum mjög spennt að hún væri til í að koma til Íslands og taka þátt í þessu verkefni með okkur og erum ótrúlega ánægð með afraksturinn.“
Línunni verður fagnað með pompi og prakt í verslun Yeoman nú um helgina. Fögnuðurinn hófst í gær þegar tónlistarkonan Jófríður Ákadóttir, betur þekkt sem JFDR, tók lagið fyrir fullu húsi.
Stemning og falleg föt á Laugarveginum um helgina
Herlegleitin halda svo áfram í kvöld þegar hljómsveitin Cyber stígur á stokk klukkan 18:30. Á morgun mun svo engin önnur en DJ Dóra Júlía þeyta skífum fyrir gesti verslunarinnar á milli klukkan 14 og 16.
Áhugasamir geta skoðað línuna betur á glænýrri heimasíðu Yeoman eða mætt í verslunina við Laugarveg 7 nú um helgina.

