Skoðun

Orku­sjálf­stæði Ís­lands

Svavar Halldórsson skrifar

Ef við Íslendingar ætlum að ná loftslagsmarkmiðum okkar er algerlega nauðsynlegt að flýta orkuskiptum eins og kostur er. En þótt við framleiðum mikið af grænni orku þá þurfum við að gera enn betur. Við flytjum enn inn olíu fyrir 100 milljarða króna á ári. Ef fyrirhuguð orkuskipti eiga að ganga eftir þurfum við að herða okkur í virkjun vindorku, jarðhita og fallvatna – að sjálfsögðu með almenn umhverfissjónarmið að leiðarljósi.

Meiri græna orku

Orkuskiptin ein og sér kalla á 80% meiri framleiðslu grænnar orku. Verkin verða að tala. Innlendir umhverfisvænir orkugjafar eru á allan hátt betri fyrir umhverfið og efnahaginn, enda virðist samstaða meðal þjóðarinnar um að framtíð Íslands sé best borgið með áherslu á sjálfbærni, græna atvinnuuppbyggingu og nýsköpun. Fyrir liggur að fjöldi tækifæra er til að skapa ný og eftirsótt störf á Íslandi. Mörg þeirra áhugaverðu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja sem sprottið hafa upp á síðustu árum treysta á græna orku. En til þess að þau megi dafna þarf að virkja orkuna.

Umhverfisvæn atvinnuuppbygging

Hreinleiki Íslands og græn orka á samkeppnishæfu verði, veita okkur mikið forskot í alþjóðlegri samkeppni og tækifæri til að auka enn verðmætasköpun og bæta lífskjör. Spurning er ekki hvort, heldur hvenær, allar samgöngur á Íslandi verða umhverfisvænar. Grænni tækni í samgöngum fleygir fram um allan heim. Við höfum séð byltingu í framboði á grænum valkostum þegar kemur að bifreiðum. Áður en við vitum af verður stór hluti nýrra skipa og flugvéla gerður fyrir umhverfisvæna orkugjafa. Þá verðum við að vera tilbúin með grænu orkuna.

Orka og sjálfstæði þjóðarinnar

Ef við ætlum að ná markmiðum okkar um græna framtíð og kolefnishlutleysi verðum við að herða okkur í framleiðslu umhverfisvænnar orku. Það liggur ljóst fyrir. En það eru ekki bara umhverfissjónarmiðin sem knýja á um að við beislum meira af grænni orku. Nýleg þróun alþjóðamála hefur sýnt okkur svart á hvítu að það er skynsamlegt að stefna á orkusjálfstæði Íslands eins hratt og auðið er. Til þess að svo megi verða þurfum við nánast að tvöfalda innlenda orkuframleiðslu á næstu árum.

Höfundur er stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×