Jaroslaw Kaczynski, 73 ára, sagði að ef áframhald yrði á því að konur undir 25 ára drykkju jafn mikið og karlar á sama aldri myndu engin börn fæðast. „Til að verða alkóhólisti þarf karlmaður að drekka of mikið í 20 ár, að meðaltali, en konur í aðeins tvö ár,“ sagði leiðtoginn meðal annars.
Kaczynski, sem er sjálfur barnlaus, sagðist hafa þetta eftir lækni sem hélt því fram að sér tækist að lækna þriðjung karlkyns sjúklinga sinna af alkóhólisma en engar konur.
Leiðtoginn sagði að hann væri ekki fylgjandi því að konur eignðust börn ungar, þar sem þær þyrftu að „þroskast í að verða mæður“. Ef þær drykkju fram að 25 ára aldri, þá boðaði það hins vegar ekki gott fyrir fæðingartíðnina í landinu.
Stjórnarandstöðuþingmaðurinn Joanna Scheuring-Wielgus er meðal þeirra sem hafa tjáð sig um ummælin og segir þau myndu vera hlægileg ef þau væru ekki grafalvarleg. Önnur þingkona sagði ummælin gamaldags og móðgun við konur.
Anna Lewandowski, eiginkona knattspyrnumannsins Robert Lewandowski, tjáði sig einnig um málið á Instagram og sagði: „Nóg komið. Það reiðir mig að sjá stjórnmálamenn ásaka konur í stað þess að horfast í augu við hinn raunverulega vanda.“
Gagnrýnendur Kaczynski segja efnahagslegar aðstæður og þungunarrofslöggjöf landsins stuðla að því að konur veigri sér við því að verða óléttar.