Um er að ræða hinn 25 ára gamla framherja Harley Willard sem leikið hefur á Íslandi frá árinu 2019 og skoraði alls 15 mörk í 24 leikjum í deild og bikar með Þór á síðustu leiktíð.
Willard nýtti ákvæði til að rifta samningi sínum við Þór eftir leiktíðina, en samningurinn gilti annars út tímabilið 2024, þar sem hann hafði hug á að reyna fyrir sér í sterkari deild en Lengjudeildinni. Hann lék því aðeins eina leiktíð með Þórsurum en heldur kyrru fyrir á Akureyri.
Áður lék Willard þrjár leiktíðir með Víkingi Ólafsvík í Lengjudeildinni og hefur hann samtals skorað 38 mörk í 84 leikjum í næstefstu deild Íslands.
Willard var í unglingaakademíu Arsenal á sínum tíma og lék einnig með yngri liðum Southampton áður en hann fór að reyna fyrir sér annars staðar.
Willard varð í 4.-5. sæti yfir markahæstu leikmenn Lengjudeildarinnar í sumar en Þór endaði í 7. sæti.