„Ábyrgðin er ráðherrans. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er áfellisdómur yfir verklagi ráðherra við sölu Íslandsbanka. Hún staðfestir það sem við bentum á í vor,“ segir Kristrún í svari við fyrirspurn fréttastofu.
„Það bendir allt til þess að lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafi ekki verið fylgt — um hæsta verð og jafnræði. Ráðherra átti að tryggja að þessum markmiðum væri náð, en þar brást hann,“ segir Kristrún.
Henni þykir einsýnt að skýrslan sé svört og Bjarni hljóti að sitja uppi með þennan Svarta-Pétur.
„Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar kann sleifarlag ráðherra að hafa skaðað hagsmuni ríkissjóðs. Og jafnræðis var ekki gætt. Fyrir vikið er traust til stjórnvalda og til fjármálakerfisins laskað. Það er alvarlegt.“
Kristrún segir að vænta megi frekari viðbragða frá henni vegna málsins.
„Við þurfum tíma til að fara yfir skýrsluna og leggja mat á stöðuna. En það er alveg ljóst að þessu máli er ekki lokið.“