Það var um sexleytið í gærmorgun sem stærðarinnar aurskriða féll á Grenivíkurveg. Á sama tíma var tveimur bílum ekið eftir veginum og hreif skriðan þá báða með sér. Engan sakaði. Í öðrum þeirra var Ægir Jóhannsson sem býr á Akureyri en starfar á Grenivík.
Vegurinn hefur verið ófær síðan skriðan féll. Vegagerðin bíður átekta en hópur skriðusérfræðinga frá Veðurstofu Íslands er fyrir norðan þessa stundina og metur hvort óhætt sé að hleypa mannskap í að hreinsa veginn.
„Það er hópur frá okkur að skoða aðstæður og meta hver staðan er og hvort hættan sé farin úr þessu og þess háttar,“ segir Ester Hlíðar Jensen, skriðusérfræðingur hjá Veðurstofunni. Enn er því óvíst hvenær hægt verður að opna veginn fyrir umferð að nýju en vegagerðin bendir á að hjáleið er um Dalsmynni.
En hvernig bera sérfræðingarnir sig að við að meta öryggi í hlíðinni?
„Það er í sjálfu sér með ýmsum hætti. Hægt er að sjá upptökin og það veltur á því hvort hægt er að fljúga með dróna þarna upp og jafnvel fara. Það þarf að meta það hvort öruggt sé að ganga þar upp. Það spilar margt inn í hvort við getum metið þetta,“ segir Estar Hlíðar Jensen, skriðusérfræðingur.
Uppfært klukkan 14.01 - Eftir vettvangsskoðun í morgun hefur Veðurstofan heimilað Vegagerðinni að hefja hreinsunarstarf. Samkvæmt verkstjóra hjá Vegagerðinni mun sú vinna taka sinn tíma þar sem um er að ræða mikið magn af jarðvegi sem þarf að fjarlægja.
Á morgun laugardag munu eftirlitsmenn frá Veðurstofu meta stöðuna á ný og verður Grenivíkurvegur því lokaður enn um sinn eða þar til Veðurstofan gefur grænt ljós og Vegagerðin lokið sínu hreinsunarstarfi.