Bjarni kom fyrir kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun á opnum fundi um söluferlið. Hann sagðist telja jafnræði fjárfesta veikan blett í söluferlinu og vísaði hann til mismunandi aðferðafræði hjá söluráðgjöfum sem hefði betur mátt samræma með samningum við þá.
Bjarni sagði marga kosti við tilboðsleiðina og vísaði til þess að gott verð hafi fengist fyrir hlutinn og en að gallar við leiðina – sem geti komið fram í svo smáu samfélagi – hafi hins vegar raungerst.
„Það eru gallar sem henta illa fyrir sölu á ríkiseign sem raungerðust í þessu. Þá getur verið að ráðherrann, ríkisstjórnin, og eftir atvikum þingið, þurfi að gera það hreinlega upp við sig hvers virði það er að leggja aukna áherslu á gagnsæi og jafnræði við frekari sölu. Og hvort það sé svo mikils virði að hægt sé að sætta sig við eitthvað lægra verð til að þess að tryggja þau markmið.
Þetta er eitthvað sem við eigum eftir að ræða þegar fram í sækir,“ sagði Bjarni á fundinum í morgun. .
Niðurstaða skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluferlið var sú að fjölþættir annmarkar hafi verið á söluferlinu þegar hlutur ríkisins í Íslandsbanka var seldur í mars síðastliðnum. Ríkisendurskoðun dró þó ekki í efa að fjárhagsleg niðurstaða söluferlisins hafi verið ríkissjóði almennt hagfelld.