Grétar Ingi Erlendsson, formaður bæjarráðs Ölfuss, taldi sig geta fullyrt að Þorláksskógar væru langstærsta skógræktarverkefnið á Íslandi. Það tæki yfir svæði sem væri stærra en allt höfuðborgarsvæðið, en þetta sagði hann í fréttum Stöðvar 2 sem og í þættinum Um land allt.
„Við í Rangárþingi ytra vorum aðeins að spá í tjáningu Ölfusinga um að Þorláksskógar væru stærsta skógræktarverkefni á Íslandi,“ segir Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, en hann áframsendi tölvupóstsamskipti við Skógræktina í dag þar sem fram kemur að Hekluskógar næðu yfir 100.000 hektara á móti hámark 4.500 hekturum undir Þorláksskóga.

Haraldur Birgir Haraldsson, skipulags- og byggingafulltrúi Rangárþings ytra, sendi fyrr í dag svohljóðandi fyrirspurn á Skógræktina:
„Eru ekki Hekluskógar stærri en væntanlegir Þorláksskógar?“
Svohljóðandi svar barst Rangárþingi ytra frá Hreini Óskarssyni, sviðsstjóra þjóðskóga hjá Skógræktinni:
„Jú, það er hárrétt hjá þér. Hekluskógar eru stærsta skógræktarverkefni landsins / endurheimtarverkefni birkiskóga. Starfssvæði verkefnisins er um 100.000 hektarar eða um 1% Íslands og innan þess er áætlað að koma upp um 60 þúsund hekturum birkiskóga. Þorláksskógaverkefnið er vissulega stórt verkefni á landsvísu ca 4.000-4.500 hektarar en aðeins brot af starfssvæði Hekluskóga,“ segir í svari sviðsstjóra þjóðskóganna.

„Það væri örugglega gaman fyrir ykkur að gera frétt um Hekluskógaverkefnið því ég held að menn geri sér ekki grein fyrir umfanginu því þetta eru jú tæplega 1% af flatamáli Íslands,“ segir Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra.