Dagatölin eru þau vinsælustu hver jól en með þeim hefur ávallt fylgt lítil tannkremstúpa. Á dagatölunum er einnig límmiði með mynd af tannburstanum Tanna og tannkremstúpunni Túpu sem minna krakka á að bursta í sér tennurnar.
Lionsklúbburinn Freyr hóf innflutning á þessum dagatölum fyrir rúmum fimmtíu árum en dagatölin hafa sést á flest öllum heimilum landsins.
Dagatölin eru seld til fjáröflunar fyrir Lionsklúbbana en með sölu þeirra hafa klúbbarnir getað styrkt starf fjölda líknarfélaga, til dæmis deildir Landspítalans, þjónustuíbúðir DAS, Gigtarfélagið og fleiri.
„Stefnt er að því að klúbbarnir geti hafið sölu Lions jóladagatalanna næsta ár og um leið er öllum þakkað stuðningurinn við þetta skemmtilega jólaverkefni, ekki síst verslununum sem allar hafa selt þau fyrir hver jól án þess að taka krónu fyrir það,“ segir í tilkynningu frá Lionsklúbbnum Frey.