Engström var dæmdur til vistunar á réttargeðdeild og getur sérstakur dómstóll einn úrskurðað um mögulega lausn mannsins.
Árásin átti sér stað þann 6. júlí síðastliðinn þegar hin árlega stjórnmálavika í Almedalnum fór fram þar sem allir helstu stjórnmálaleiðtogar Svíþjóðar safnast saman. Kom fram við rannsókn að Engström hafi ætlað sér að bana formanni sænska Miðflokksins, Annie Lööf.
Engström stakk hina 64 ára Ing-Marie Wieselgren til bana en hún var einn helsti sérfræðingur Svíþjóðar í geðheilbrigðismálum og var stödd á Gotlandi í tilefni af stjórnmálavikunni. Réðst Engström á hana með hníf og lést hún síðar af sárum sínum.
Í frétt SVT kemur fram að dómari hafi ekki metið morðið á Wieselgren sem hryðjuverk, en að með því að hafa ætlað sér að myrða formann Miðflokksins hafi Engström gerst sekur um skipulagningu hryðjuverkaárásar.
Lööf átti að halda fréttamannafund nærri þeim stað þar sem Engström réðst á Wieselgrein, skömmu eftir að árásin var gerð.
Annie Lööf tilkynnti eftir þingkosningarnar í september síðastliðinn að hún myndi láta af formennsku í Miðflokknum. Sagði hún að málið hafi haft mikil áhrif á sig og fjölskyldu sína.