Þetta kemur fram í tilkynningu sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar sendi frá sér hönd félagsins fyrr í kvöld.
Gert að greiða tæpar þrjár milljónir í miskabætur
Fyrr í dag greindi Vísir frá því að Efling stéttarfélag hefur verið dæmt til að greiða þremur fyrrverandi starfsmönnum félagsins samanlagt tæplega þrjár milljónir króna auk málskostnaðar. Dómurinn mat uppsagnir þeirra árið 2018 lögmætar en Efling væri þó skaðabótaskyld vegna bágrar framkomu gagnvart starfsmönnunum þremur.
Elín Hanna Kjartansdóttir, fyrrverandi bókari, Kristjana O. Valgeirsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri, og Anna Lísa Terraza höfðuðu málið. Þeim var öllum sagt upp störfum hjá Eflingu árið 2018 skömmu eftir að Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörin formaður stéttarfélagsins. Sökuðu þær Eflingu um brot á kjarasamningum og gerðu athugasemdir við framkomu forsvarsmanna félagsins, Sólveigar Önnu og Viðars Þorsteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eflingar.
Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að starfsmennirnir hafi fengið greidd laun á uppsagnarfresti í samræmi við kjarasamning og ráðningarsamning. Var Efling dæmd til að greiða Elínu 700 þúsund krónur og Kristjönu 900 þúsund krónur í miskabætur. Til viðbótar fékk Elín rúmlega 700 þúsund krónur sem dregin höfðu verið af launum hennar vegna veikindaforfalla. Dómurinn taldi mega rekja veikindin til óvæginnar framgöngu við áminningu sem henni var veitt.

Segja rökstuðning byggðan á mismunandi og matskenndum sjónarmiðum
Í fyrrnefndri tilkynningu Sólveigar Önnu kemur fram að í dómunum þremur hafi verið staðfest að uppsagnir þeirra starfsmanna sem gerðu kröfur á hendur Eflingu voru lögmætar, enda hafi uppsagnirnar verið samræmi við viðeigandi kjara- og ráðningarsamninga.
„Þetta þýðir að tugmilljón króna kröfum þeirra á hendur Eflingu var hafnað og staðfesta dómarnir þannig jafnframt að Eflingu bar á engan hátt að verða við slíkum kröfum.ׅ“
Þá segir að rökstuðningur í dómunum sé byggður á mismunandi og matskenndum sjónarmiðum í hverju máli fyrir sig og atvikum í hverju máli.
„Í því sambandi ber að taka fram að niðurstaða um miskabætur byggist ekki á því að Efling hafi brotið gegn réttindum starfsmanna á neinn hátt, heldur er staðfest að gætt var að ákvæðum kjara- og ráðningarsamninga við uppsagnirnar.“
Þá telur Efling að þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar í málunum varðandi miskabætur séu að minnsta kosti ekki rétt að öllu leyti.
„Þannig voru til dæmis dæmdar miskabætur vegna framkvæmdar uppsagnar sem sýnt var fram á að hefði verið að öllu leyti til samræmis við ráðgjöf fagaðila í mannauðsmálum, auk þess sem í öðru málanna virðist sem Efling sé látin bera ábyrgð á umfjöllun ótengds aðila í fjölmiðlum.“