Stafræn list komin til að vera
María segir heiðurinn vera mikinn þar sem listform hennar þyki ekki beint klassískt en hún sérhæfir sig í starfrænni list.
„Stafræna listin hefur oft ekki verið alveg samþykkt af listheiminum en það er samt að breytast mjög mikið núna. Art Basel er framsækin hátíð og það var virkilega gaman að sjá hvað stafræn list er að festa sig í sessi.“
Aðspurð hvernig hún fékk tækifæri til að vera með á hátíðinni segir María:
„Ég var ráðin sem sýningarstjóri (e. curator) inn í hóp sem heitir lonely.Rocks sem er safn af sjálfsmyndum. Ég curate-aði meðal annars mitt eigið verk inn í sýninguna sem er 3D skönnuð sjálfsmynd af mér. Við vorum með bás á Untitled, sem var eitt af aðal tjöldunum þarna á ströndinni á Miami.“

Erfitt og einangrandi
Daglegt líf listamannsins er ekki endilega það sem fólk ímyndar sér en María segist eyða miklum tíma með sjálfri sér í starfinu.
„Ég vinn í tölvu og sit marga klukkutíma á dag sem getur verið frekar erfitt og einangrandi. Ég er dugleg að mæta á viðburði og ráðstefnur og hitta aðra sem gera það sama og ég.
Ég er mjög þakklát fyrir að fá að vera hérna í senunni í New York, það er mjög auðvelt að kynnast könum og ég er allt í einu komin í sömu kreðsu og listamenn sem að ég hef lengi litið upp til.“

Sýningar erlendis og heima
Það er mikið um að vera hjá Maríu og ýmislegt spennandi á döfinni.
„Ég er með aðra opnun hérna á samsýningu í East Village á morgun þar sem ég er að sýna AR prent. Það eru prent sem virka með gagnaukinn veruleika, sem verða að hreyfimynd þegar síminn er notaður til að skoða þau. Ég tek svo þátt í samsýningu í Hafnarborg í vor.
Ég er líka að vinna að einkasýningu sem verður á næsta ári á Íslandi sem að ég er búin að vera að vinna að í smá tíma sem fjallar um að rísa upp eftir dauða sem gervigreind,“
segir María að lokum.