Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá lendingu þotunnar á Kangerlussuaq-flugvelli á myndum frá KNR á Grænlandi. Þar fékk hún heiðursmóttöku slökkviliðs flugvallarins.

Rétt eins og gerðist hjá Íslendingum í sinni sjálfstæðisbaráttu hefur það verið metnaðarmál Grænlendinga á undanförnum árum að treysta eigin samgöngur við umheiminn. Það mátti því búast við að komu þessarar glænýju Airbus-breiðþotu beint úr verksmiðjunum í Suður-Frakklandi yrði vel fagnað á flugvellinum í Kangerlussuaq.
Dönsk flugfréttasíða fullyrti reyndar í fyrra að Grænlendingar hefðu fengið þotuna frá Airbus á óvenju hagstæðu verði. Engu að síður er hún langstærsta fjárfesting í sögu þjóðarflugfélagsins Air Greenland og sögð hafa kostað yfir fjórtán milljarða íslenskra króna.

Á flugvellinum mátti sjá helstu ráðamenn landsins gleðjast með hópi skólabarna, þar á meðal forsætisráðherrann Múte B. Egede, varaforsætisráðherrann Erik Jensen, og Kim Kielsen, fyrrum forsætisráðherra. Íbúum Kangerlussuaq og öðrum gestum var boðið að skoða flugvélina og að þiggja kökur og kræsingar í flugskýli.
Nýja þotan er af gerðinni Airbus A330 og leysir af 24 ára gamla þotu sömu tegundar, sem rúmar 278 farþega. Þessi er hins vegar örlítið stærri, tekur 305 farþega, og eyðir fjórðungi minna eldsneyti.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: