Að minnsta kosti 25 voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar í Þýskalandi á miðvikudaginn er lögreglan framkvæmdi húsleitir hjá fólki sem tengdist hægri öfga-hópnum Reichsburger.
Fram hefur komið að meðal þeirra handteknu séu 71 árs maður af aðalsætt, Hinrik XIII, og fyrrverandi þingmaður á þýska þinginu.
Fréttastofa Sky greinir nú frá því að stjörnukokkurinn Frank Heppner hafi einnig verið handtekinn í aðgerðum lögreglu. Hann var staddur á veitingastað sínum í Austurríki, Kitzbuhel, þegar hann var tekinn.
Samkvæmt grein Sky átti Heppner að taka við mötuneyti nýju ríkisstjórnarinnar. Þá átti hann líka að elda ofan í hermenn landsins.
Heppner hefur starfað á mörgum af fínustu veitingastöðum Evrópu en hann sérhæfir sig í evrópsk-asískri matargerð.
Dóttir hans, Shalimar Heppner, starfar sem samskiptafulltrúi og fyrirsæta. Hún er í sambandi með knattspyrnumanninum David Alaba sem spilar fyrir Real Madrid á Spáni. David Alaba var hluti af austurríska liðinu sem Ísland sigraði á EM 2016 og tryggði sig þannig áfram í sextán liða úrslit mótsins.