Williams fær þátttökurétt í gegnum svokallað „Wildcard“ og mun því taka þátt á Opna ástralska risamótinu, 25 árum eftir að hún keppti á mótinu í fyrsta skipti.
Þrátt fyrir að hafa aðeins unnið þrjá leiki á 13 mótum á síðasta tímabili hefur þessi 42 ára gamla tenniskona ekki enn gefið í skyn að hún ætli sér að fylgja fordæmi systur sinnar, hinnar 41 árs gömlu Serenu Williams, og leggja tennisspaðann á hilluna.
Williams hefur unnið sjö risatitla í einliðaleik á ferlinum. Hún komst í tvígang í úrslit á Opna ástralska, árin 2003 og 2017, en þurfti í bæði skiptin að sætta sig við silfurverðlaun. Hún hefur þó tryggt sér fimm titla í tvíliðaleik í Melbourne á ferlinum.
„Ég er mjög spennt að vera að fara að spila aftur í Melbourne. Það verður mikill heiður að spila fyrir framan þessa áhorfendur aftur,“ sagði Williams.
„Ég hef verið að keppa þarna í yfir tuttugu ár og ástralska samfélagið hefur alltaf stutt mig af öllu hjarta. Ég hlakka til að skapa fleiri minningar á næsta móti.“
Williams, sem var um tíma besta tenniskona heims, situr nú í 1.007. sæti heimslistans.