Tilboðið verður kynnt nánar á samningafundi Eflingar og SA undir stjórn Ríkissáttasemjara klukkan níu í fyrramálið. Tilboðið gildir til loka þess dags samkvæmt tilkynningu sem kom frá Eflingu fyrr í dag.
Hækkanir á töxtum verða á bilinu 57.500 krónur til 65.558 krónur að meðtalinni flatri fimmtán þúsund króna framfærsluuppbót. Gerðar eru breytingar á hlutföllum innan launatöflu.
„Meginforsendur tilboðsins eru að lægstu taxtalaun hækki nægilega til að ná til baka kaupmáttarrýrnun síðan í apríl 2022 og að tryggja kaupmátt taxtalauna fram að lokum samningstíma. Þá er horft til þess að samningur sé raunverulegt framhald Lífskjarasamningsins í þeim skilningi að hækkanir lægstu launa og taxtalauna séu ekki miklu lægri en hækkanir þeirra sem ofar eru í launastiganum. Jafnframt miðar samningurinn að því að hlutdeild launa í hagvexti og góðri afkomu fyrirtækja sé tryggð,“ segir í tilkynningunni frá Eflingu.