„Okkur langaði að eiga live upptöku af nýja jólalaginu okkar sem væri aðeins einfaldari og enn meira kósý en sú sem við gáfum út fyrir nokkrum vikum,“ segir Klara í samtali við Vísi.
Hún samdi lagið ásamt pródúsentinum Þormóði Eiríkssyni, sem hefur samið og útsett fyrir marga af fremstu tónlistarmönnum landsins. Þormóður spilar á rafmagnsgítar í myndbandinu.
„Kjartan Baldursson, sem var með mér á gítar á tónleikunum, spilaði á kassagítar með mér og Þórmóði í þessari upptöku en Kjartan er reyndar ekki í mynd. Það var bara ekki pláss á brettinu fyrir hann haha! En hann var í lykilhlutverki á tónleikunum með mér, svo það vonandi bætir upp fyrir það,“ segir Klara en í myndbandinu sitja hún og Þormóður á stökkbretti í sundhöllinni.

Ekki enn eitt jólalagið um hluti sem skipta engu máli
Lagið Desember kom út í síðasta mánuði og segir Klara að hún hafi ekki viljað gera enn eitt jólalagið sem fjallaði um pakkana, kertin og aðra veraldlega hluti sem skipta engu máli þegar upp er staðið. Lagið fjallar því um desember mánuð, að hann sé í raun bara eins og hver annar mánuður.
„Hann er dimmur og kaldur og fyrir marga er hann ekkert spes. En mín upplifun er sú að það sem gerir þennan mánuð hlýjan og fallegan eru ekki bara jólaljós og kerti heldur fólkið sem maður deilir honum með,“ segir Klara.
Hér að neðan má sjá fallegan flutning Klöru og Þormóðar á laginu Desember í Sundhöll Hafnarfjarðar.