Allir helstu sérfræðingar Stöð 2 Sport komu saman á gamlárskvöld í Sportsíldinni þar sem íþróttaárið var gert upp í máli og myndum. Í Olís-deild karla voru Valsmenn liðið sem skaraði fram úr og vann alla titla sem í boði voru á tímabilinu.
Valsarar hófu tímabilið með sigri á Haukum í Meistarakeppni HSÍ og hófu síðan tímabilið vel þrátt fyrir að lykilleikmenn hefðu helst úr lestinni vegna meiðsla. Bræðurnir Benedikt Gunnar og Arnór Snær Óskarssynir vöktu gríðarlega athygli og voru fremstir í flokki í Valsliðinu sem tókst að tryggja sér deildarmeistaratitilinn.
Úrslitakeppnin var æsispennandi. Einvígi Hauka og KA í 8-liða úrslitum var gríðarlega dramatískt sem og viðureign FH og Selfyssinga. Að lokum voru það þó lið Vals og ÍBV sem tryggðu sér sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.
Einvígi þeirra var stútfullt af dramatík. Valsmenn völtuðu yfir Eyjamenn í fyrsta leiknum sem sýndu síðan gríðarlegan karakter á heimavelli í leik tvö og komu til baka. Í þriðja leiknum hafði Valur betur eftir mikla spennu og gátu því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í leik fjögur í Vestmannaeyjum. Það tókst þeim eftir mikinn baráttuleik og Íslandsmeistaratitillinn því Valsmanna.
Valur varð einnig bikarmeistari í fyrra og vann því alla titla sem í boði voru á síðasta tímabili. Það afrek tryggði þeim verðlaun sem lið ársins á hófi íþróttafréttamanna nú í lok ársins, sem og Snorra Steini Guðjónssyni tilnefningu sem þjálfari ársins.
Alla umfjöllunina í Sportsíldinni um Olís-deild karla má sjá hér fyrir ofan.