Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, var bannaður á bæði Facebook og Twitter í kjölfar innrásarinnar. Trump notaði Twitter aðgang sinn til að hvetja fólk til þess að mæta fyrir utan þinghúsið þar sem kjör Joe Biden til embættis forseta Bandaríkjanna fékk formlega afgreiðslu.
Elon Musk, forstjóri og eigandi Twitter, aflétti banni Trump á sínum miðli á síðasta ári. Trump hafði þó lítinn áhuga á að snúa aftur þangað og vill frekar halda sig á miðlinum sem hann sjálfur stofnaði, Truth Social.
Fréttamiðillinn NBC hefur fengið í hendurnar bréf sem kosningaskrifstofa Trump sendi Meta, móðurfélagi Facebook, í von um að fá aðgang hans til baka. Í bréfinu stendur meðal annars að bannið sé brenglað vegna umræðunnar í samfélaginu sem hefur smitað ímynd hans.
Meta mun taka ákvörðun á næstu vikum en upphaflega var bannið varanlegt. Þó var það seinna gefið út að hann gæti mögulega fengið aðganginn aftur tveimur árum eftir að það var lokað á hann, í janúar 2023. Því ákvað skrifstofan að óska eftir aðganginum.