Þingfesting í máli hjúkrunarfræðings á geðdeild Landspítala sem ákærð er fyrir manndráp í ágúst 2021 fór fram í vikunni. Hjúkrunarfræðingnum er gefið að sök að hafa neytt næringardrykk ofan í sjúkling, með þeim afleiðingum að hann lést. Í yfirlýsingu Landspítala vegna málsins í gær segir að við atvikið hafi ýmsir annmarkar komið í ljós á geðþjónustunni - sem gerðar hafi verið úrbætur á. Spítalanum þykir jafnframt miður að hafa brugðist því starfsfólki sem starfaði við „ófullnægjandi aðstæður“ á þessum tíma.
Gott að fá viðurkenninguna
Guðbjörg Pálsdóttir formaður Félags hjúkrunarfræðinga fagnar yfirlýsingu spítalans.
„Þarna finnst mér Landspítalinn stíga fram með gott fordæmi og viðurkennir það að það þarf skýrara verklag, betri starfsaðstæður og aukna þjálfun. Og ég fagna því mjög. Nú er þessi viðurkenning komin þannig að nú verður spennandi að sjá hvert framhaldið verður,“ segir Guðbjörg.
Búið sé að gefa í á ýmsum sviðum - en ekki nógu mikið. Fyrst og fremst verði að bæta mönnun. Mál hjúkrunarfræðingsins, sem og önnur sambærileg, hvíli þungt á stéttinni. Hávært ákall sé um að refsilöggjöf verði endurskoðuð.
„Auðvitað slær þetta hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk. Ég ætla bara að leyfa mér að tala líka fyrir þeirra hönd því þau eru meðvituð um það og eru búin að vera það til margra ára. Það er mjög sérstakt að sinna starfi sem þú hefur áhuga á að læra, lærðir og vilt starfa við og síðan er þetta starfsumhverfið sem setur þér þessar skorður. Það eru engin lágmarksviðmið í mönnun, það eru ófullnægjandi starfsaðstæður, það vantar búnað og fleira. Síðan ef eitthvað kemur upp á ert það þú sem ert tekinn fyrir dómstóla, þú sem einstaklingur,“ segir Guðbjörg.