Flyr var stofnað í ágúst árið 2020 í miðjum kórónuveirufaraldri og hóf flug í lok júní árið eftir. Félagið er lággjaldaflugfélag og flaug til 34 áfangastaða víðs vegar um Evrópu, þó ekki til Íslands. Orðið flyr er norska fyrir orðið „fljúgandi“.
E24 greinir frá því að forstjóri flugfélagsins, Erik Braathen, hafi í kvöld tilkynnt að á morgun yrði félagið skráð gjaldþrota. Hann segir að um sé að ræða afar dapran dag og vill meina að starfsmenn hafi gert allt sem þeir gátu til að halda fyrirtækinu á floti.
„Ég vil biðja alla afsökunar sem við höfum eyðilagt ferðaplön hjá, alla samstarfsaðila sem þurfa að koma búnaðnum sínum annað, alla hluthafa sem tapa á fjárfestingu sinni og alla starfsmenn sem eru allt í einu ekki með vinnu. Það er sárt að valda svona mörgum vonbrigðum,“ hefur E24 eftir Braathen.
Rekstur félagsins hafði gengið erfiðlega frá upphafi að sögn Braathen og segir hann flugbransann vera afar erfiðan. Hann taldi það vera pláss fyrir félagið í bransanum en svo var ekki.
Um helgina fór annað lággjalda flugfélag á hausinn, breska félagið Flybe. Það hafði verið í rekstri síðan í apríl 2022 og er þetta í annað sinn sem félagið verður gjaldþrota. Í mars árið 2020 varð það gjaldþrota eftir mikil rekstrarvandræði.