Formleg dánartala eftir hamfarirnar í Tyrklandi og Sýrlandi stendur nú í yfir 33 þúsund manns, en áfram heldur björgunarstarf. Hin tíu ára Kudi frá tyrknesku borginni Antayka var föst undir húsarústum í sex daga áður en henni var bjargað í dag. Sýnt var frá björgunaraðgerðum í fréttum Stöðvar 2:
Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Marin Griffiths sem mættur er á vettvang hamfaranna óttast að tala látinna muni tvöfaldast hið minnsta.
„Þetta er virkilega átakanlegt. Sú vitneskja að þessi grjótföll haldi enn fólki föstu, sumu lifandi, mörgu dáin. Ég held að það sé mjög erfitt að áætla tölu látinna nákvæmlega því við veðrum að komast undir brakið. En ég er viss um að talan mun tvöfaldast eða meira en það,“ segir Griffiths.
Handtökutilskipun hefur nú verið gefin út á hendur 113 manns vegna húsa sem hrundu í jarðskjálftunum. Bent hefur verið á að aðgerðirnar séu leið stjórnvalda til að koma sér undan ábyrgð á hamförunum. Sérfræðingar höfðu árum saman varað við alvarlegum brotalömum í tyrkneskum byggingariðnaði sem þrifist hefðu í skjóli spillingar og vafasamrar stefnu stjórnvalda.
Senda 30 milljónir króna
Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands ræddi ástandið í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hún segir að hratt hafi verið brugðist við en að um yfirþyrmandi verkefni sé að ræða.
„Upptökusvæðið er stórt og það eru milljónir manna sem búa þarna. Auðvitað er reynt að bjarga fólki úr rústunum eins og hægt er. Nú hefur tími liðið og það sem Rauði krossi leggur nú áherslu á er mannúðaraðstoð, að koma eftirlifendum til aðstoðar með mat, lyfjum, tjöldum, teppi, fötum og í rauninni sálrænum stuðningi líka,“ segir Kristín.

Fjölmargir Sýrlendingar og Tyrkir er búsettir hérlendis og hvetur Kristín þá til að hafa samband í síma 1717. Neyðarsöfnun gengur vel að sögn Kristínar.
„Landsmenn hafa verið mjög duglegir að leggja inn fjármuni í neyðarsöfnun Rauða krossins. Við erum núna að senda 30 milljónir til Tyrklands og Sýrlands. Það fer beint til Rauða krossins í þessum löndum, ekki stjórnvalda,“ segir hún og bendir á að hægt er að senda SMS merkt „hjálp“ í númerið 1900 til að styrkja.
„Þetta er yfirþyrmandi verkefni og framundan er mikið uppbyggingarverkefni og mannúðaraðstoð fyrir milljónir manna,“ segir Kristín að lokum.