Það virtist draga til ákveðinna tíðinda í kjaradeilu Eflingar og ríkissáttasemjara í gær þegar Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, mættust í Pallborðinu á Vísi. Ef að kallið kæmi frá ríkissáttasemjara sagðist Sólveig tilbúin til að fresta verkföllum ef Samtök atvinnulífsins myndu fresta verkbanni, sem tekur að óbreyttu gildi á fimmtudag.
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í deilunni, segist í samtali við fréttastofu vera í samskiptum við deiluaðila til að reyna að finna sameiginlegan flöt svo þau geti komið saman. Hann hafi ekki tekið ákvörðun um hvenær nýr fundur verði boðaður en segir að eftir því sem lengra líður frá síðasta fundi þá styttist í þann næsta.
Þá sé það ekkert leyndarmál að hann íhugi að leggja fram nýja miðlunartillögu. Að öðru leyti vill hann ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Halldór Benjamín segir ekkert nýtt hafa komið upp síðan í gær.
Deiluaðila að ná saman
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í gær ljóst að boðað verkbann Samtaka atvinnulífsins myndi hafa mikil áhrif. Það væri þó í höndum deiluaðila að ná saman.
„Það er þeirra hlutverk og skylda að ná saman. Það er hlutverk aðila vinnumarkaðarins að ná samningum og það hefur ekkert breyst þó að þessi deila sé í hörðum hnút.
Það stæði ekki til að ríkisstjórnin stigi inn í.
„Það er ekki til skoðunar á þessum tímapunkti og við metum það svo við ríkisstjórnarborðið að það sé ekki tímabært. Eins og fram hefur komið þá erum við bara að meta stöðuna frá degi til dags þannig auðvitað ræðst þetta allt af samfélagslegum áhrifum,“ sagði forsætisráðherra.