Skoðun

Dagur ristil­krabba­meina 3. mars 2023

Sigurdís Haraldsdóttir skrifar

Í dag er alþjóðlegur dagur sem ætlað er að vekja almenning til vitundar um ristil- og endaþarmskrabbamein (hér á eftir saman nefnt ristilkrabbamein). Nýgengi ristilkrabbameins hefur tvöfaldast á síðustu 60 árum og er við það að taka fram úr lungnakrabbameini sem næstalgengasta tegund krabbameina á Íslandi. Árlega greinast hér á landi um 200 manns með ristilkrabbamein og um 60 manns látast árlega vegna sjúkdómsins. Nýgengi er á uppleið hjá ungu fólki og því var nýverið ákveðið að hefja skimun hjá fólki frá 45 ára aldri í Bandaríkjunum. Bandarískar rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar fæddir árið 1980 eru tvisvar til fjórum sinnum líklegri til að greinast með ristilkrabbamein en foreldrar þeirra. Enn er ekki ljóst hvers vegna nýgengi eykst hjá ungu fólki en miklu fjármagni hefur verið varið í rannsóknir á þessu á síðustu árum erlendis. Forseti Bandaríkjanna tilkynnti nýverið að mars skyldi opinberlega verða mánuður tileinkaður ristilkrabbameini.

Einkenni ristilkrabbameins eru helst járnskortsblóðleysi, kviðverkir, breyting á hægðavenjum eða blóð í hægðum og þyngdartap. Einstaklingar með fjölskyldusögu um ristilkrabbamein, sérstaklega hjá nánum blóðskyldum ættingja (foreldri, systkini, afkvæmi) eru í tvöfaldri áhættu á að þróa með sér ristilkrabbamein. Erlendar leiðbeiningar mæla með því að skimun með ristilspeglun hefjist upp úr 40 ára aldri hjá einstaklingum með náinn ættingja með ristilkrabbamein (eða 10 árum áður en yngsta greining í fjölskyldu) og sé gerð á fimm ára fresti.

Á Íslandi hefur lengi verið rætt um að hefja lýðgrundaða skimun fyrir ristilkrabbameini (hjá einstaklingum án einkenna og í meðaláhættu) og er hún nú loks í undirbúningi. Koma mætti í veg fyrir eða snemmgreina meirihluta ristilkrabbameina ef einstaklingar færu í lýðgrundaða skimun með ristilspeglun eða leit að blóði í hægðum. Við hvetjum því því til árvekni meðal almennings og heimilslækna sem og hvetjum stjórnvöld til að hefja sem fyrst lýðgrundaða skimun fyrir ristilkrabbameini svo snúa megi við þeirri þróun sem blasir við okkur í dag.

Fyrir hönd Félags íslenskra krabbameinslækna,

Sigurdís Haraldsdóttir

Höfundur er yfirlæknir krabbameinslækninga á Landspítala. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×