Tillaga Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að leggja niður starfsemi Borgarskjalasafns í núverandi mynd og flytja stærstan hluta verkefna þess til Þjóðskjalasafns Íslands - var samþykkt á borgarráðsfundi í gær. Borgarstjóri vísar til ítarlegrar skýrslu sem unnin var um reksturinn, þar sem reiknað er út að sex milljarðar gætu sparast með kostinum sem valinn var.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks segir vinnubrögð að baki tillögunni hins vegar algjörlega óverjandi og vísar til þess að fyrst hafi leynd átt að hvíla yfir tillögunni. Þá séu gögn sem borgarstjóri lagði fram óvönduð.
„Skýrslan er þannig gerð að sá kostur sem borgarstjóri leggur til, það er látið líta út fyrir að þar sé um gríðarlegan sparnað að ræða en ekki í hinum tilvikunum, þeir eru reiknaðir upp, hinir kostirnir. Og það er auðvitað ekki hægt að taka þátt í svona leiðangri þegar vinnan er jafn flaustursleg og óvönduð og raun ber vitni,“ segir Kjartan.
Vilja skoða málið betur
Sjálfstæðismenn í borginni hafa verið einir helstu talsmenn niðurskurðarhnífsins síðustu misseri. Inntur eftir því hvort að sparnaðaraðgerðir sem þessar ættu ekki einmitt að leggjast vel í hann segir Kjartan svo ekki vera í þessu tilfelli.
En hvað viljið þið þá að verði gert?
„Okkur finnst sjálfsagt að skoða málið, fara yfir þessa kosti, gefa hagsmunaaðilum í málinu kost á að fara yfir það og skila vönduðum umsögnum, ekki umsögnum sem eru gerðar á nokkrum dögum.“
Þá vísar Kjartan til þess þegar Borgarskjalasafn gerði athugasemdir við gagnavörslu borgarinnar í Braggamálinu svokallaða.
„Það verður ekki hjá því komist að rifja upp þessi samskipti nú þegar borgarstjóri fer í þennan leiðangur gegn safninu. Og mér finnst líklegast að þarna sé um hefndarleiðangur að ræða.“
Ekki náðist í borgarstjóra fyrir hádegisfréttir en hann sagði í vikunni að vandað hefði verið til verka í hverju skrefi - og verði áfram. Tillagan verður endanlega afgreidd í borgarstjórn í næstu viku.