B-landslið Noregs í handbolta kvenna kom hingað til lands í síðustu viku og lék tvo leiki gegn A-landsliði Íslands á Ásvöllum. Liðin skiptu sigrunum á milli sín. Ísland vann leik liðanna á fimmtudaginn, 31-26, en Noregur svaraði fyrir sig með endurkomusigri á laugardaginn, 26-29.
Á sama tíma var Þórir með A-landslið Noregs í Gulldeildinni. Hann hefur samt heyrt í þjálfurum B-landsliðsins og þeir eru sammála um að heimsóknin hafi tekist vel þrátt fyrir mikil forföll í norska liðinu en sjö úr upphaflega hópnum þurftu að draga sig út úr honum.
„Við vorum að taka inn svolítið af stelpum sem eiga svolítið í land ennþá. Þetta var veikara lið en venjulega. Það var meiðslavesen vegna álags hjá félagsliðum,“ sagði Þórir í samtali við Vísi í dag.

„Þetta var gott verkefni fyrir þær og þær stóðu sig að miklu leyti vel. Þær eru auðvitað með litla eða enga reynslu af alþjóðlegum leikjum. En B-landsliðið, eða þróunarhópurinn, er undirbúningur fyrir eitthvað meira. Það er verið að brúa bil milli yngri landsliða og A-landsliðsins sem er gífurlega stórt þegar við tölum um landslið sem stefnir á að vinna verðlaun á öllum mótum.“
Þórir segir að forráðamenn og leikmenn norska B-landsliðsins hafi látið afar vel af Íslandsheimsókninni.
„Hópurinn okkar hélt ekki vatni yfir móttökum og öllu í kringum þetta. Þetta var frábært. Þetta var besti túr sem þær hafa farið í, umgjörð og allt var Íslendingum sóma,“ sagði Þórir að endingu.