Í gær var Jóhanni Páli Jóhannssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, meinað að spyrja forseta Alþingis um greinargerðina sem fjallar um sölu og meðhöndlun á tugmilljarða eignum ríkisins í gegnum Lindarhvol ehf.
Var fyrirspurninni synjað á þeim forsendum að hún varðaði ekki stjórnsýslu á vegum þingsins en það er þrátt fyrir að í bréfi forseta til Lindarhvols frá 4. júní 2021 sé vísað til umræddrar greinargerðar sem hluta af stjórnsýslu Alþingis.

Haukur segir í samtali við fréttastofu að íhuga þurfi aðalatriði málsins.
„Það sem er einkennilegt við Lindarhvolsmálið er að upplýsingarétti almennings er mætt með lagaþrætu.“
Aðgangur að opinberum upplýsingum meginreglan
Kjarni málsins sé miklu stærri en „þræta um undantekningarákvæði í stjórnsýslulögum, eða sá, að um meðferð ríkisvaldsins á almannafé ríkir upplýsingaskylda. Góð meðferð almannafjár er meginskylda þess, leggur til meginrök í flestum athöfnum þess og er eitt af mikilvægustu hlutverkum Alþingis að fylgjast með í því efni. Krafa þingmanna, fréttamanna og annarra sem starfa í nafni almennings um að skýrsla Sigurðar Þórðarsonar um Lindarhvolsmálið verði gerð opinber er bæði mikilvæg og sjálfsögð.“
Þá varði opinber upplýsingagjöf stöðu, hlutverk og þátttöku almennings í lýðræðisþjóðfélagi nútímans.
„Aðgangur að opinberum upplýsingum er meginregla sem ekki verður vikið til hliðar nema af ástæðum sem varða almannahag enn meiru, t.d. þjóðaröryggi. Dómar um upplýsingarétt almennings hafa fallið og hafa dómstólar meðal annars talið hann yfirstæðan reglum um bankaleynd,“ bendir Haukur á.
„Hvað er það sem almenningur má ekki sjá?“
Í stöðuuppfærslu segir Jóhann Páll augljóst að greinargerðin falli undir stjórnsýslu þingsins í ljósi þess að það hafi verið til meðferðar hjá forsætisnefnd á þeim forsendum.
„Greinargerðin var unnin af embættismanni Alþingis, í umboði almennings, fyrir fjármuni almennings og fjallar um sölu á eignum almennings. Eftir stendur spurningin: Hvað er það sem almenningur má ekki sjá?“