Málefni Lindarhvols ehf. voru enn og aftur til umræðu á Alþingi. Þingmenn hafa krafist þess að fá aðgang að greinargerð sem fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi vann um starfsemi félagsins. Fjármálaráðherra setti félagið á fót til þess að fara með eignir föllnu bankanna sem féllu ríkinu í skaut við bankahrunið.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur neitað að verða við óskum þingmanna um að greinargerðin verði birt. Hann ítrekaði þá afstöðu sína á þingi í dag.
Lindarhvoll birti fyrir helgi lögfræðiálit sem forsætisnefnd Alþingis óskaði eftir fyrir tveimur árum um hvort rétt væri að birta greinargerðina. Niðurstaðan var að skylt væri að veita almenningi aðgang að henni.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, var ein þeirra sem kallaði eftir svörum við því hvers vegna Birgir ætlaði að hunsa lögfræðiálitið.
Í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld sagði Þorbjörg að forseti Alþingis væri í algerum minnihluta á þingi og í forsætisnefnd með þá afstöðu sína að birta ekki greinargerðina. Hann hafi þó sem forseti neitunarvald í málinu. Hún sakni þess að forseti færi rök fyrir því hvað valdi.
„Ég veit að formaður Sjálfstæðisflokksins vill ekki birta þessa greinargerð. Ég veit ekkert hvað í henni stendur eða hvort þar sé eitthvað fréttnæmt en prinsippið er bara þetta gagnsæi um meðferð á fjármunum ríkisins,“ sagði Þorbjörg og vísaði til Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.
Mögulegt sé að greinargerðin komi aldrei fyrir augu almennings.
„Það gæti orðið niðurstaðan ef forsetinn ætlar að halda sig við það að fara gegn mjög afdráttarlausu lögfræðiáliti sem segir að honum sé beinlínis skylt að gera þetta, já, því miður,“ sagði þingmaðurnin.