Það sást síðast til hinnar tólf ára gömlu Luise F. er hún gekk heim frá vini sínum á laugardaginn. Síðdegis á sunnudaginn fannst lík hennar í grennd við gömul göng.
Á blaðamannafundi sem þýska lögreglan hélt í dag var staðfest að Luise hafi verið myrt. Krufning hafi leitt í ljós að hún hafi verið stungin nokkrum sinnum með hníf og að hún hafi látist í kjölfar þess. Ekki virðist vera sem hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi.
Jafnöldrur grunaðar um morðið
Fjölmiðlar hafa í dag fullyrt að tvær stelpur á sama aldri og Luise séu grunaðar um morðið. Lögreglan staðfesti á blaðamannafundinum að sönnunargögn gefi til kynna að tvö börn eigi hlut að máli. Um sé að ræða börn sem eru tólf og þrettán ára gömul.
Lögreglan gerir því ráð fyrir því að ekki verði hægt að sækja þau til saka þar sem sakhæfisaldur þar í landi er fjórtán ára. Börnin séu nú í umsjón viðeigandi yfirvalda. Þá segir lögreglan að ekki sé grunur um að fleira fólk hafi átt aðild að morðinu.
Ætlar að halda börnunum heima þar til málið er leyst
Bærinn Freudenberg er ekki ýkja stór en þar búa rúmlega átján þúsund manns. Samkvæmt RTL er samfélagið í áfalli vegna morðsins.
Faðir sem ræðir við fjölmiðilinn segir að hann ætli ekki að hleypa börnunum sínum í skólann fyrr en lögreglan kemst til botns í málinu. „Bara þegar búið er að leysa málið,“ er haft eftir föðurnum.