Valsmenn hafa þegar tekið æfingu í höllinni þar sem leikurinn fer fram en höllin er sögð ein mesta gryfja þýsku úrvalsdeildarinnar. Ljóst er að stemningin verður mikil þar sem uppselt er á leikinn og brekkan brött fyrir Val sem þarf að vinna upp sjö marka mun frá því í fyrri leiknum.
„Ég held við mætum vel stemmdir, þetta er Evrópuleikur á móti þýsku úrvalsdeildarliði. Auðvitað er svekkjandi hvernig fyrri leikurinn fór og vera ekki með þetta í meira jafnvægi en það er eins og það er,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, og hélt áfram.
„Erum búnir að hrista það af okkur og ætlum að mæta stinnir til leiks á morgun. Komum til með að sækja til sigurs, svo þurfum við að sjá hvernig leikurinn þróast og hvort við eigum yfir höfuð einhvern séns í þá. Höfum trú á að við getum unnið þá. Ef það gengur eftir að setja þá undir smá pressu þá sjáum við hvernig þetta þróast.“
Viðtalið við Snorra Stein má hlusta á hér að neðan sem og viðtal við Arnór Snær Óskarsson og Björgvin Pál Gústavsson. Lengri útgáfur af viðtölunum birtast svo á Vísi á morgun, þriðjudag.
Leikur Göppingen og Vals verður sýndur beint á Stöð 2 Sport annað kvöld. Hefst útsending klukkan 18.30.