Ný mánaðarskýrsla hagdeildar Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar fjallar meðal annars um þær hræringar sem hafa verið á lánamarkaði eftir að Seðlabankinn hóf sitt stýrivaxtahækkunar skeið.
Í síðustu viku hækkaði bankinn stýrivexti um 100 punkta og hafa stýrivextir ekki verið jafn háir síðan á fyrri hluta árs 2010. Kári S. Friðriksson er hagfræðingur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
„Þetta mun fyrst og fremst hafa áhrif á fólk sem er með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum og þá getum við séð að fólk sem er með 40 milljón króna lán að greiðslubyrðin á því gæti hækkað um 30 þúsund krónur á mánuði.“
Eru þetta mörg heimili sem falla undir þessa skörpu hækkun?
„Það eru sem betur fer ekki hátt hlutfall heimila sem eru með mjög háa greiðslubyrði en það er þó eitthvað í kringum 10.000 heimili sem eru með greiðslubyrði upp á 260.000 eða voru það í janúar. Stór hluti þessara heimila gæti verið með óverðtryggð lán og þannig séð svona mikla hækkun.“
Margir muni síðan fá skell þegar fastir vextir taka að losna í stórum stíl með haustinu.
„Stærsti hlutinn þó á síðari hluta næsta árs og byrjun þarnæsta en alltaf sífellt fleiri heimili eftir því sem líður á.“
Þótt húsnæðismarkaðurinn hafi kólnað er hann alls ekki botnfrosinn.
„Við erum ekki farin að sjá neitt miklar lækkanir heldur er verð nokkurn veginn búið að standa í stað síðustu sex, sjö mánuði.“