JWST var notaður til að greina innrautt ljós frá fjarreikistjörnunni. Hátt hitastig á dagshlið reikistjörnunnar, sem snýr alltaf að stjörnunni, gefur til kynna að hún hafi ekki einhverskonar andrúmsloft sem dreifir hitanum um allan hnöttinn.
Þetta er í fyrsta sinn sem ljós frá yfirborði svo smárrar og kaldrar fjarreikistjörnu er greint utan sólkerfis okkar. Á vef Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) segir að um mikilvægt skref í leit að reikistjörnum sem geta borið líf sé að ræða.

Trappist-1 b er innsta reikistjarna Trappist sólkerfisins. Stjörnufræðingar opinberuðu tilvist sólkerfisins árið 2017 en þá fundust þar sjö reikistjörnur á stærð við jörðina. Þar af voru þrjár á hinu svokallað lífbelti sólkerfisins, þar sem mögulegt er að finna vatn í fljótandi formi.
Trappist-stjarnan er rauður dvergur og allar reikistjörnurnar eru tiltölulega nálægt henni. Allar reikistjörnurnar sex kæmust fyrir innan sporbrautar Merkúr. Fjarlægð Trappist-1 b frá sinni stjörnu er um eitt prósent af fjarlægð jarðarinnar frá sólu en þar sem rauði dvergurinn gefur ekki frá sér jafn mikla geislun og sólin, fær Trappist-1 b ekki nema um fjórum sinnum meiri geislun en jörðin, þó hún sé mun nær.
How do you take a planet s temperature? The team measured the change in brightness (in infrared light, or emitted heat energy) when TRAPPIST-1 b moved behind its star. This was a challenge because the star is 1000 times brighter, and the change in brightness was less than 0.1%. pic.twitter.com/8jQWVK4xRL
— NASA Webb Telescope (@NASAWebb) March 27, 2023
Ári eftir uppgötvun Trappist var birt rannsókn þar sem fram kom að mögulega væri hægt að finna mikið magn vatns í Trappist-sólkerfinu.
Sjá einnig: Trappist-sólkerfið talið ríkt af vatni
James Webb er stærsti og besti geimsjónauki sem hefur verið framleiddur og er honum meðal annars ætlað að varpa ljósi á uppruna alheimsins og taka hágæðamyndir af fjarlægum stjörnuþokum.
JWST nemur innrautt ljós og þarf hann að vera gífurlega kaldur til að virka rétt og svo geislun frá honum sjálfum trufli ekki skynjara sjónaukans.
Upprunalega stóð til að sjónaukinn myndi kosta einn til 3,5 milljarða dala og átti að skjóta honum á loft árið 2010. Honum var skotið á loft árið 2021 og kostaði í heild um tíu milljarða dala.