Saksóknarar bættu nýlega nýjum liðum við ákæru á hendur Bankman-Fried, sem oft er kallaður SBF í bandarískum fjölmiðlum, sem á fyrir yfir höfði sér áratugalangt fangelsi fyrir að féfletta viðskiptavini og fjárfesta FTX.
Í viðaukanum við ákæruna sem bættist við í síðasta mánuði er SBF sakaður um að hafa gefið stjórnarmálasamtökunum tugi milljóna dollara í gegnum leppa til þess að komast í kringum lög um hámarksfjárhæðir slíkra framlaga.
Á þriðjudag bættist við liður um að Bankman-Fried hafi lagt á ráðin um að brjóta lög um mútugreiðslur með því að leggja drög að því að senda fjörtíu milljónir dollara til kínverskra yfirvalda til þess að komast yfir milljarða dollara af innistæðum vogunarsjóðs í hans eigu sem voru frystar, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Þrír fyrrverandi stjórnendur FTX og vogunarsjóðsins Alameda Research hafa þegar játað sig seka um afbrot og vinna nú með saksóknurum í málinu gegn Bankman-Fried.
Bankman-Fried er sakaður um að hafa fært milljarða dollara af innistæðum viðskiptavina FTX til þess að bjarga Alameda Research í fyrra. FTX fór á hausinn eftir að viðskiptavinir gerðu áhlaup og tóku út milljarða dollara af innistæðum sínum síðasta haust. Bankman-Fried var handtekinn á Bahamaeyjum í desember og framseldur til Bandaríkjanna.
Réttarhöld yfir Bankman-Fried eiga að hefjast í október.