Lilja fundaði með fulltrúa Evrópusambands í Brussel í vikunni og ræddi fyrirhugaðar breytingar á núgildandi löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins um losunarheimildir fyrir flug.
Áætlun sambandsins miðar að því að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 55 prósent fyrir árið 2030. Tillögurnar sem lagðar hafa verið fram fela meðal annars í sér kröfur til flugfélaga um notkun vistvænni orkugjafa. Alþingismenn hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega.
„Mitt markmið var að skýra út frekar sérstöðu Íslands og landfræðilega legu. Það er alveg ljóst að við erum fjær Evrópu en samgöngur innan Evrópu. Og það er þannig að þessi aukna skattheimta hún leggst þyngra á þá staði sem eru fjarri hjarta Evrópu. Ég tel að það sem sé að gerast í þessu máli sé að skilningur sé að aukast og við auðvitað fögnum því. Það er þannig að Ísland getur ekki tekið upp þessa tilskipun eins og hún liggur fyrir nú.“
„Hreinlega ekki búið að taka tillit“
Hún telur að ábendingar og varnaðarorð íslenskra ráðamanna hafi strax komið sér til skila.
„Hjá framkvæmdastjórninni er það þannig að það var bara hreinlega ekki búið að taka tillit til þessara þátta. Og þá er það auðvitað okkar hlutverk að koma og skýra og gera grein fyrir þjóðhagslegu mikilvægi flugsins á Íslandi. Við höfum verið með tengiflugið í áratugi og með þessu tengiflugi eru auðvitað flugsamgöngur mun betri á Íslandi og við auðvitað erum að koma vöru og þjónustu mun greiðar inn á okkar markaði,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.