Undrabarn og snillingur
Pablo Picasso fæddist þann 25. október 1881 í Málaga á Suður-Spáni. Hann var undrabarn, snillingur, upphafsmaður kúbismans og einn allra fremsti listamaður 20. aldarinnar. Hann er mest seldi listamaður samtímans, þannig er t.a.m. talið að árið 2021 hafi um 3.500 verk eftir Picasso verið seld fyrir andvirði um 100 milljarða íslenskra króna.
Tugir sýninga um Picasso á þessu ári
Spánverjar blása til sannkallaðrar veislu á þessu ári og eru um 50 sýningar á verkum Picasso fyrirhugaðar bara á Spáni og í Frakklandi þar sem hann bjó lungann af ævi sinni. Þá eru ótaldar allar aðrar sýningar í Evrópu og Bandaríkjunum.
En ef áhugamenn um Pablo Picasso hafa áhuga á að heimsækja Spán, já eða Frakkland, þá er þetta árið til þess að gera það. Í fæðingarborg hans, Málaga finna menn Picasso-safnið sem var opnað fyrir 20 árum og í Barcelona er enn eldra Picasso-safn sem opnaði fyrir 60 árum.

Frægasta verkið er ádeila á stríð
Þá er mörg verka Picassos að finna á Prado-safninu í Madrid, að ógleymdu hans allra frægasta verki Guernica, sem er á Reina Sofia safninu í Madrid.
Verkið er innblásið af loftárás þýska og ítalska flughersins þann 26. apríl 1937 á baskneska bæinn Gernika þar sem hundruð óbreyttra borgara voru drepin. Picasso fyrirskipaði að þetta magnaða verk yrði ekki flutt til Spánar fyrr en fasistastjórn Francos liði undir lok og íbúar landsins yrðu frjálsir. Haustið 1981 var flogið með verkið til Madrid, með millilendingu í Keflavík, og síðan þá hefur það verið í Madrid, þrátt fyrir að íbúar Guernica telji að verkið eigi hvergi heima nema þar.
Ein og hálf milljón manna skoða verkið á ári hverju, eða um 4.000 manns á dag.
Þótti grimmur í samskiptum við konur
Á síðustu árum hafa samskipti Picasso við ást- og sambýliskonur hans verið harðlega gagnrýnd og hann sakaður um að hafa beitt þær ofbeldi, andlegu jafnt sem líkamlegu.
Þrátt fyrir að vera líklegasti frægasti listmálari Spánar á 20. öldinni, þá er aðeins til eitt einasta viðtal við Picasso á spænsku. Þar segist hann aldrei hafa gleymt Spáni og verði í raun meiri Spánverji við að búa í útlöndum.