Bæjarstjórn Árborgar hefur boðað til íbúafundar á hótel Selfossi klukkan sautján á morgun þar sem fjárhagasstaða bæjarins verður kynnt eftir vinnu sem byggir á úttekt sem KPMG gerði fyrir sveitarfélagið. Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri segir fjárhagsstöðuna gríðarlega erfiða eins og hjá um tuttugu öðrum sveitarfélögum.
Árborg hafi verið í miklum vexti og uppbyggingu undanfarin ár og tekið vertryggð lán sem hafi hækkað mikið í verðbólgunni og vaxtahækkununum að undanförnu. Bærinn væri nálægt greiðslufalli.

„Það mátti ekki mikið útaf bera til að við værum komin á þann stað að við værum í hálfgerðu greiðslufalli.“
Nánast í greiðslufalli?
„Já,“ segir Fjóla.
Í dag skuldi sveitarfélagið um 28 milljarða króna. Veltufé frá rekstri hafi verið neikvætt í nokkur ár og væri nú neikvætt um 76 þúsund krónur á hvern íbúa. Það væri hins vegar jákvætt um 100 þúsund krónur á íbúa hjá samanburðarsveitarfélögum eins og Mosfellsbæ, Reykjanesbæ, Akranesi og Akureyri sem einnig hefðu verið í örum vexti.
„Einhvern veginn hefur sveitarfélagið Árborg verið í þessum vanda í mjög langan tíma,“ segir bæjarstjórinn.
Árið 2020 hafi farið að halla á verri veg þegar veltufé frá rekstri hafi verið um 20 þúsund krónur á íbúa. Tekjulega séð væri samt ekki hægt að kenna covid faraldrinum um stöðuna.
„Við erum í raun á þessum tíma farin í innviðafjárfestingar. Förum í leikskólabyggingu, íþróttahús, við förum af stað með nýja grunnskóla. Þannig að það eru miklar fjárfestingar á síðast liðnum fjórum árum sem kannski voru orðnar uppsafnaðar að einhverju leyti. Allt verðtryggt og í dag þegar komin er tíu prósenta verðbólga er það ekki gott,“ segir Fjóla. Skuldahlutfallið aukist dag frá degi.

Þá hafi verið farið í mikla innviðauppbyggingu vegna fjölgunar mikillar fjölgunar íbúa. Það hafi þó hægt á henni vegna kulnunar á fasteignamarkaði. Starfsmönnum bæjarfélagsins hafi einnig fjölgað meðal annars vegna nýrra leikskóla og grunnskóla.
Engu að síður væru mikil tækifæri í stöðunni til endurskipulagningar og hagræðingar, án þess að skerða þjónustu bæjarins. Gera þurfi reksturinn sjálfbæran, meðal annars með sölu eigna. Aðgerðirnar verði þó ekki sársaukalausar.
„En auðvitað erum við ekki að fara að greiða niður skuldir sveitarfélagsins með því að hagræða eingöngu í rekstri. Það þarf fleira að koma til.“
Þannig að það þarf að segja upp einhverju fólki?
„Ég geri ráð fyrir að það verði einhver hagræðing sem, já, komi niður á einhverjum störfum. Því miður þá er það þannig,“ segir Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri í Árborg.
Sjálfstæðisflokkurinn er einn í meirihluta í Árborg eftir að hafa unnið hreinan meirihluta í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra. Á síðasta kjörtímabili mynduðu Áfram Árborg, Miðflokkurinn, Framsókn og óháðir og Samfylkingin meirihluta, það er allir aðrir flokkar í bæjarstjórn nema Sjálfstæðisflokkurinn.