Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að ákvörðunin um niðurlagningu Héraðsskjalasafn sé tekin í tengslum við tillögur Ásdísar Kristjánsdóttur bæjarstjóra um breytingar í starfsemi menningarhúsa bæjarins og samþykktar voru á bæjarstjórnarfundi í gær.
Samhliða breytingum mun stöðugildum menningarhúsa bæjarins fækka úr 33 í 29. Menningarhús bæjarins eru nú Gerðarsafn, Bókasafn Kópavogs, Lindasafn, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Salurinn, auk Héraðsskjalasafns Kópavogs.
Safneign Náttúrufræðistofu til Gerðarsafns
Í tilkynningunni segir tillögurnar geri ráð fyrir frekari samþættingu á starfsemi menningarhúsanna samfara því sem fjármunum verði forgangsraðað með öðrum hætti.
„Gert er ráð fyrir nýju upplifunar- og fræðslurými á fyrstu hæð Bókasafns Kópavogs sem tekið verður í notkun á árinu 2024. Rík áhersla verður lögð á viðburði, sýningar og fræðslu þar sem bókmenntir, myndlist, náttúruvísindi og tónlist mætast í einu og samarými sem miðar við börn og fjölskyldur,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að safneign Náttúrufræðistofu, fræðsla, miðlun og rannsóknir á henni muni færast undir forstöðumann Gerðarsafns. Önnur rannsóknarstarfsemi á Náttúrufræðistofu og vöktun á vatnalífríki verði lögð niður og færð öðrum í samstarfi við Kópavogsbæ. Gerðarsafn og Náttúrufræðistofa verði enn sjálfstæð, sérhæfð og viðurkennd söfn á sínum sérsviðum.
Mikilvægt að starfsemin sé í taks við tímann
Haft er eftir Ásdísi að fyrirhugaðar breytingar feli í sér mikil tækifæri. Menningarhúsin séu flaggskip bæjarins og mikilvægt að starfsemi þeirra sé í takt við tímann. „Við breytingarnar verður lögð áhersla á að auka enn frekar aðdráttarafl menningarhúsanna með því að fara nýjar leiðir og forgangsraða fjármunum betur í þágu bæjarbúa,“ segir Ásdís.
Fram kemur að við gerð tillagnanna hafi verið byggt á greiningarvinnu KPMG og umsögnum forstöðumanna menningarhúsanna. Þá hafi menningarstefna Kópavogsbæjar verið höfð að leiðarljósi.
Á heimasíðu Héraðsskjalasafns Kópavogs segir að það hafi verið stofnað árið 2000 og að aðdragandi stofnunarinnar hafi verið Bæjarskjalasafn Kópavogs sem hafi starfað á bæjarskrifstofum Kópavogs frá árinu 1978.