Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Áhöfn Freyju lauk við að færa farm Wilson Skaw til að gera fyrirhugaðan drátt sem áhættuminnstan.
„Verkið hófst á laugardag og tók skemmri tíma en áætlað var. Færanlegir kranar á hlið skipsins voru nýttir til verksins og reyndust sérlega vel. Þá var einnig soðið fyrir brunnop í afturlest.
Verkefnið er nú í höndum björgunarfélags sem starfar á vegum eigenda skipsins.

Landhelgisgæslan gerir ráð fyrir að skipið verði dregið úr Steingrímsfirði á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni.
Skipið, sem er um 4.000 brúttótonn og 113 metra langt var á leið frá Hvammstanga til Hólmavíkur þegar það strandaði þann 18. apríl. Um borð voru um tvö þúsund tonn af salti og 195 tonn af olíu.
